Hvernig meta Íslendingar fólk sem talar með hreim?

Greining á duldum viðhorfum með sérstöku tilliti til kyns og aldurs

  • Stefanie Bade Háskóli Íslands
erlendur hreimur, dulin viðhorf til máls, staðalmyndir, málbreytileiki, hulinspróf

Útdráttur

Fólk hefur gjarnan mismunandi viðhorf til tungumáls og tilbrigða í máli. Viðhorfin fara þá oft eftir bakgrunni og umhverfi einstaklings. Í þessari rannsókn er kannað hvernig bakgrunnsþættir hafa áhrif á mat á erlendu tali. Upptökur með átta konum sem tala með mismunandi hreim voru spilaðar fyrir 538 Íslendinga sem voru svo beðnir um að meta upptökurnar eftir átta atriðum tengdum áliti og virðingu. Upplesarar eru fulltrúar helstu innflytjendahópa og eru þeir frá Bandaríkjunum, Danmörku, Filippseyjum, Litáen, Póllandi, Taílandi og Þýskalandi ásamt einum talanda með íslensku að móðurmáli. Uppruna talenda var leynt fyrir hlustendunum og notast var við hulinspróf (e. verbal guise technique). Tölfræðileg greining niðurstaðna leiddi í ljós að konur og fólk eldra en 60 ára er að jafnaði jákvæðara í mati sínu en karlar og fólk yngra en 60 ára. Mikill breytileiki var í niðurstöðum eftir öðrum bakgrunnsþáttum, svo sem búsetu, menntun og starfsstétt, sem sýnir að félagslegir þættir hafa áhrif á viðhorf fólks til hreims. Heildarniðurstöður leiða í ljós að hreimur sem flokka mætti sem „vestrænan“ er að jafnaði tekinn fram yfir hreim sem einkennir Austur-Evrópu- og Asíubúa. Hugmyndafræðileg flokkun af því tagi getur haft áhrif á það rótgróna málloftsslag sem hefur verið ríkjandi á Íslandi og breytt því í stigskipt kerfi sem byggist á skynjun innfædds og erlends tals.

Útgáfudagur
2018-06-01
Tegund
Ritrýndar greinar