Allavega alveg

Höfundar

  • Katrín Axelsdóttir Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/86dqxk90

Lykilorð:

atviksorð, lýsingarorð, orðræðuagnir, orðsifjar, tíðni

Útdráttur

Í greininni er fjallað frá ýmsum hliðum um orðið alveg sem er í hópi algengustu orða málsins. Það er þó frekar nýtt í málinu, elsta trausta dæmið um það er frá því um 1800. Á síðari hluta 19. aldar eykst notkun þess mjög og núna er þetta langalgengasta orðið í merkingunni ‛algerlega’, ‛fullkomlega’. Talið hefur verið að orðið sé nýmyndun, upprunnin í talmáli, en hér er stungið upp á þeim möguleika að það hafi verið lærðra manna tilbúningur, hugsanlega sett saman til höfuðs orðunum allagutu (sem vitað er að mæltist misvel fyrir) og tökuorðinu aldeilis. Merkingartilbrigði og hlutverk alveg eru í nútímamáli mun fleiri en ráða má af orðabókum. Til að kanna þetta var fanga einkum leitað í gagnagrunnum um bæði ritað mál og talmál. Bent var á að atviksorðið alveg gæti m.a. merkt ‛talsvert’, ‛mjög’, ‛hæglega’ og ‛a.m.k.’, allt eftir samhengi. Þá var fjallað um stöðu þess sem lýsingarorðs (t.d. alveg logn, alveg met, alveg hryllingur) en sú notkun er ekki nefnd í orðabókum. Loks var rætt um stöðu þess sem orðræðuagnar en í þeim efnum var bent á þrenns konar hlutverk: sem nokkurs konar dempun í tengslum við andmæli (ég hlusta alveg á útvarp EN ég geri það samt sjaldan), sem merki um beina ræðu (og hún alveg: „ertu eitthvað bilaður?“) og sem hugsanlegt hikorð (það var alveg frekar gaman).

Niðurhal

Útgefið

2025-10-30

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar