Efnissvið og áherslur

Tímaritið Orð og tunga birtir greinar sem lúta að máli og málfræði. Lögð er áhersla á greinar um orðfræði, þ. á m. nafnfræði og íðorðafræði, og greinar um orðabókafræði og orðabókagerð, sem og fræðilegar greinar um málrækt og málstefnu. Sem dæmi má nefna greinar um tiltekin málfræðileg, málfélagsleg, nafnfræðileg eða orðabókafræðileg viðfangsefni; greinar um einstakar orðabækur eða tegundir orðabóka, íðorðasöfn eða aðrar handbækur; einnig greinar um einkenni og sögu íslensks orða- og nafnaforða eða afmarkaðs hluta hans, jafnvel einstök orð, þ. á m. nýyrði og annað sem lýtur að endurnýjun orðaforðans. Tímaritið tekur við fræðigreinum, smágreinum og bókadómum. Greinar eru að jafnaði skrifaðar á íslensku en einnig eru birtar greinar á ensku.

Ritrýni

Fræðilegar greinar í Orði og tungu eru ritrýndar. Það felur í sér að auk ritstjóra lesa a.m.k. tveir ónafngreindir sérfræðingar hverja grein.  Í framhaldi af því metur ritstjóri hvort viðkomandi grein fellur innan efnissviðs ritsins og hvort hún stenst þær kröfur sem gerðar eru til greina sem þar eru birtar. Auk almennrar kröfu um fræðileg vinnubrögð, trausta röksemdafærslu og skýra framsetningu er ætlast til þess að höfundar fylgi reglum tímaritsins um frágang. Ritrýnar fá engar upplýsingar um hver er höfundur greinarinnar. Til að tryggja nafnleysi eru höfundar beðnir um að ganga úr skugga um að ekki séu nein höfundarauðkenni í skjölunum sem send eru til tímaritsins í fyrstu umferð. Gert er ráð fyrir að höfundar fái svör varðandi birtingu innan tveggja mánaða frá síðasta skiladegi.  Þá hafa höfundar tækifæri til að lagfæra greinarnar í samræmi við athugasemdir ritrýna. Mikilvægt er þó að höfundar skili vönduðum textum strax í upphafi því það auðveldar vinnu ritstjóra og eykur líkurnar á að greinin verði tekin til birtingar.

Óritrýnt efni

Orð og tunga tekur einnig við óritrýndu efni eins og bókadómum, smágreinum um málfræðileg efni og málfregnum um helstu nýjungar á sviði hagnýtrar málfræði.  

Opinn aðgangur

Allar greinar sem birtar eru í Orði og tungu eru í opnum aðgangi frá útgáfudegi. Höfundar þurfa ekki að greiða fyrir birtingu. Öll eldri hefti eru aðgengileg á heimasíðu tímaritsins og á vefsíðunni Tímarit.is.

Leyfi

Greinar í Orði og tungu eru gefnar út undir leyfinu CC BY-NC-SA 4.0 (Creative Commons Attribution NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).

Höfundaréttur

Höfundur eða höfundar eiga ótakmarkaðan höfundarrétt á greinum sem birtast í Orði og tungu.

Prentuð útgáfa

Orð og tunga kemur einnig út í prentaðri útgáfu og er t.d. sölu m.a. í Bóksölu stúdenta. Áskrift að tímaritinu má panta með því að senda póst til ordogtunga@arnastofnun.is

Útgefandi

Tímaritið Orð og tunga er gefið út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. SÁM er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Hlutverk hennar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á.