Senda inn efni
Leiðbeiningar til höfunda
Gangið fyrst úr skugga um það að skjalið sé nafnlaust og ekki hægt að rekja til höfundar!
1) Lengd textans, leturgerð og spássíur
Letrið á greininni á að vera Times New Roman og leturstærðin 12 pt., sú sama á fyrirsögnum og meginmáli. Spássíur eiga að vera stilltar á 2,5 cm á alla fjóra vegu og línubil á 1,5. Neðanmálsgreinum skal stillt í hóf en sé þeirra þörf eiga þær að vera með letrið Times New Roman og leturstærð 10, einfalt línubil.
Ritrýndar greinar skulu öllu jöfnu ekki vera lengri en 8000 orð, að öllu meðtöldu (þ.m.t. heimildaskrá og útdráttur).
2) Uppbygging greinar
Greininni skal skipt í númeraða kafla og hverjum þeirra má svo skipta í undirkafla eftir því sem þörf krefur. Kaflarnir skulu fá lýsandi heiti auk númers. Bygging greinar gæti þá verið eitthvað á þessa leið:
Titill greinar
1 Inngangur
2 XXXFyrirsögnXXX
2.1 xxxfyrirsögnxxx
2.2 xxxfyrirsögnxxx
3 YYYFyrirsögnYYY
3.1 yyyfyrirsögnyyy
3.2 yyyfyrirsögnyyy
4 Lokaorð
Heimildir
Lykilorð (á ensku og íslensku)
Útdráttur (á ensku og íslensku)
Ef nauðsyn krefur má bæta við öðru lagi undirkafla, t.d. 2.1.1, 2.1.2 o.s.frv. Gert er ráð fyrir því að allar greinar hefjist á inngangi þar sem m.a. er skýrt frá meginviðfangsefni greinarinnar, efnistökum, efnisskipan og helstu niðurstöðum. Sömuleiðis á greinum að ljúka með niðurlagskafla þar sem ályktanir og niðurstöður eru dregnar saman.
Greinaskil skal auðkenna með auðri línu og sömuleiðis á að vera auð lína á undan og á eftir kaflaheiti. Hins vegar skal hvergi draga inn línur, hvorki í upphafi kafla né á eftir greinaskilum.
3) Beinar tilvitnanir, dæmi og leturbreytingar
Stuttar beinar tilvitnanir inni í textanum skal auðkenna með gæsalöppum en lengri tilvitnanir skal setja í sérstakar efnisgreinar, afmarkaðar með inndrætti og auðri línu á undan og eftir.
Dæmi eru númeruð með tölustöfum. Ef dæmið er í mörgum liðum má merkja hvern lið fyrir sig með bókstaf.
(4) a) Íbúunum fjölgaði.
b) Ísinn bráðnaði.
c) Skipið sökk.
Stuttar dæmasetningar inni í meginmáli eiga að vera skáletraðar. Það á einnig við um bókartitla, bæði í meginmáli og heimildaskrá. Töflu- og myndatextar eiga að vera beinletraðir en fyrirsögn þeirra skáletruð. (Dæmi: Tafla 1. Algengustu orðmyndirnar í gagnasafninu.)
Merking orða eða orðasambanda skal afmörkuð með einföldum gæsalöppum ofan línu (t.d. kani ‘sleði’) en beinar tilvitnanir inni í meginmáli með venjulegum (íslenskum) gæsalöppum, t.d.: ... eins og NN segir í grein sinni þá ,,er þetta ný merking“ (1990:47) ...
Feitletur á einkum við þegar leggja þarf sérstaka áherslu á orð eða auðkenna veigamikil hugtök sem til umfjöllunar eru. Feitletur skal nota sparlega.
Aðrar leturbreytingar skal einungis nota ef brýna nauðsyn ber til og því aðeins að þær gegni augljósu hlutverki í textanum.
4) Töflur og myndir
Stærð taflna og mynda verður að miðast við að þær (ásamt myndatexta) rúmist á 12x17 cm stórum leturfleti. Myndir skal jafnframt senda í sér skjali og í góðri upplausn. Dæmi um töflu má sjá hér að aftan:
ösku- sem áhersluliður (málfræðilegt) ösku- sem sjálfstætt orð
ösku-vondur (lo.) ösku-bakki (no.)
ösku-reiður (lo.) ösku-ský (no.)
Tafla 4. ösku- sem áhersluliður og sem sjálfstætt orð.
Töflur og myndir skulu númeraðar og vísað til þeirra í meginmálinu með númeri (t.d. ,,eins og sjá má í Töflu 1“ en ekki t.d. ,,eins og sjá má í töflunni hér á undan“). Þeim skal jafnframt fylgja texti sem skýrir efni töflunnar eða myndarinnar (jafnvel þótt frekari útskýringar séu í meginmáli). Textinn skal birtast fyrir neðan hverja töflu eða mynd. Nauðsynlegt er að marka greinilega fyrir þeim stað í textanum þar sem hentast þykir að koma slíku efni fyrir (þótt umbrotið ráði útlitinu að lokum); form slíkra merkinga getur t.d. verið: ...[tafla 1 komi hér] ...
5) Neðanmálsgreinar
Neðanmálsgreinar skulu númeraðar frá upphafi til enda greinarinnar en fjölda þeirra og lengd skal stillt í hóf.
6) Tilvitnanir, tilvísanir og heimildaskrá
Vísa skal til heimildar við óbeinar jafnt sem beinar tilvitnanir og tilvísanirnar eiga að vera í sviga innan meginmáls. Tilgreina skal nafn höfundar (eða heiti verks, t.d. orðabókar), útgáfuár rits eða greinar og eftir atvikum blaðsíðutal sem vísað er til. Dæmi um tilvísanir:
- ...NN (1999:10–12) heldur því fram að ...
- ...(sjá NN 1999:333)...
- ...eins og NN (1999) hefur gert grein fyrir... o.s.frv.
Heiti orðabóka(r) má skammstafa og skal skammstöfunin þá skýrð í heimildaskrá.
Í heimildaskrá skal gefa nákvæmar upplýsingar um tilvitnuð rit — höfund, útgáfuár, titil bókar eða heiti greinar og rits sem hún birtist í ásamt upplýsingum um blaðsíðutal og árgang tímarits; jafnframt skal getið um útgáfustað og útgefanda bóka. Þegar vitnað er í heimildir á veraldarvef skal tilgreina nákvæma slóð.
Form heimildaskrár skal vera í samræmi við eftirfarandi dæmi:
a) Bækur
Ari Páll Kristinsson. 2018. Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Birna Arnbjörnsdóttir. 2006. North American Icelandic: The Life of a Language. Winnipeg: University of Manitoba Press.
Svensén, Bo. 2004. Handbok i lexikografi. Ordböcker och ordboksarbete i teori og praktik. Stockholm: Norstedts Akademiska Förlag.
b) Ritstýrðar bækur eða ráðstefnurit
Auer, Peter og Yael Maschler (ritstj.). 2016. NU/NÅ: A Family of Discourse Markers Across the Languages of Europe and Beyond. Berlin: De Gruyter.
Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson og Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.). 2015. Tilbrigði í íslenskri setningagerð II. Helstu niðurstöður. Tölfræðilegt yfirlit. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands.
c) Greinar í ritstýrðum bókum
Bloomfield, Leonard. 1937. Notes on Germanic Compounds. Í: Mélanges linguistiques offerts à M. Holger Pedersen, bls. 303–307. Kaupmannahöfn: Levin & Munksgaard.
Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir. 2015. Processering af en synonym-komponent i en flersproget ordbog. Í: Asgerd Gudiksen og Henrik Hovmark (ritstj.). Nordiske Studier i Leksikografi 13. Rapport fra 13. Konference om Leksikografi i Norden, bls 371–382. København: Skrifter udgivet af Nordisk Forening for Leksikografi.
Neijmann, Daisy. 2018. Mál til samskipta eða tengsla? Gildi íslenskunnar í Vesturheimi.Í: Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason (ritstj.). Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning, bls. 279–302. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Traugott, Elizabeth Closs. 2007. Historical pragmatics. Í: Laurence R Horn, og Gregory Ward (ritstj.). The Handbook of Pragmatics, bls. 538–577. Oxford: Blackwell Publishing.
d) Greinar í tímaritum
Kristín Bjarnadóttir. 2001. Verbal Syntax in an Electronic Bilingual Icelandic Dictionary: A Preliminary Study. LexicoNordica 8:5–21.
Kristján Árnason. 2002. Upptök íslensks ritmáls. Íslenskt mál og almenn málfræði 24:157−193.
e) Orðabækur
Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
DDO = Den danske ordbog. København: Det Danske Sprog- og Litteraturselskab. ordnet.dk/ddo (maí 2018).
Íslensk orðabók. 2002. (3. útg. aukin og endurbætt.) Ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.
Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
f) Óútgefnar námsritgerðir
Ryan Eyford. 2010. An Experiment in Immigrant Colonization: Canada and the Icelandic Reserve, 1875–1897. Óbirt doktorsritgerð við Manitóbaháskóla. Winnipeg.
Sigrún Steingrímsdóttir. 2004. Skrats, tjatt og tsjill. Um aðlögun enskra aðkomuorða að íslensku hljóð- og beygingakerfi. Óbirt BA-ritgerð við Háskóla Íslands. Reykjavík.
g) Gagnasöfn
Athugið að dagsetja skal allar rafrænar heimildir!
málið.is. https://málið.is (sótt í maí 2018). [ath! lítill stafur]
Tímarit.is. https://timarit.is (sótt í maí 2018).
8) Útdrættir
Greininni þarf að fylgja stuttur útdráttur (hámark 200 orð) þar sem fram kemur viðfangsefni greinarinnar, kjarninn í umfjöllun höfundar (sjónarhorn, helstu rök o.þ.h.) og meginniðurstöður. Höfundar eru beðnir að skila útdrætti bæði á íslensku og ensku. Gert er ráð fyrir að annar útdrátturinn birtist með greininni í tímaritinu (á öðru máli en greinin sjálf) og útdrættirnir á báðum málunum á vefsíðu stofnunarinnar. Jafnframt eru höfundar beðnir að velja fáein meginhugtök sem lykilorð (á íslensku og ensku) sem lýsa efni greinarinnar að þeirra mati og ættu 3–5 orð eða orðasambönd að duga að jafnaði. Lykilorðin eru birt í lok greinarinnar og eru einkum notuð til að lykla hana í skrám bókasafna.
9) Þegar handrit hefur verið samþykkt
Þegar höfundar sendar endurbætta útgáfu skulu þeir skrifa nafn sitt undir heiti greinarinnar og nafn, stofnun og netfang aftast.
Minnislisti höfunda
Til að senda inn grein í Orð og tungu þurfa höfundar að staðfesta eftirfarandi atriði. Greinar sem ekki standast þessar kröfur verða endursendar höfundum.
- Greinin hefur hvorki birst áður í öðru tímariti né verið send öðru tímariti til birtingar.
- Höfundur fylgir öllum leiðbeiningum um frágang greina og uppsetningu heimilda.
- Nafn mitt kemur hvergi fram í skjalinu.
- Ég nota leturgerðina Times New Roman 12 p og línubilið er 1,5. Hver efnisgrein endar á auðri línu (ekki inndregið).
Articles
Section default policyPersónuvernd
Nöfn og netföng verða ekki notuð í öðrum tilgangi en að miðla upplýsingum er varða tímaritið. Upplýsingar verða ekki afhentar þriðja aðila.