Upplýsingar til höfunda

Tímaritið Orð og tunga birtir greinar sem lúta að máli og málfræði. Lögð er áhersla á greinar um orðfræði, þ. á m. nafnfræði og íðorðafræði, og greinar um orðabókafræði og orðabókagerð, sem og fræðilegar greinar um málrækt og málstefnu. Sem dæmi má nefna greinar um tiltekin málfræðileg, málfélagsleg, nafnfræðileg eða orðabókafræðileg viðfangsefni; greinar um einstakar orðabækur eða tegundir orðabóka, íðorðasöfn eða aðrar handbækur; einnig greinar um einkenni og sögu íslensks orða- og nafnaforða eða afmarkaðs hluta hans, jafnvel einstök orð, þ. á m. nýyrði og annað sem lýtur að endurnýjun orðaforðans.

Til að grein fáist birt í tímaritinu þarf höfundur að hafa eitthvað nýtt fram að færa. Nýnæmi getur falist í kenningarlegu framlagi, aðferðafræði og því að ný gögn séu kynnt.  Efni sem birst hefur áður í bókum eða fræðitímaritum er að öðru jöfnu ekki tekið til birtingar í tímaritinu. 

Til að fræðileg grein teljist hæf til birtingar er gert ráð fyrir eftirfarandi þáttum:

a) Greinagóðri lýsingu á tilgangi og markmiði rannsóknar.
b) Yfirliti yfir skrif annarra fræðimanna og rannsóknir sem tengjast efninu.
c) Umfjöllun um aðferðafræði rannsóknarinnar og þær kenningar sem liggja að baki, þ.m.t. greinargóðar útskýringar á helstu hugtökum sem notast er við.
d) Greiningu á þeim gögnum sem aflað var.
e) Greinargerð um helstu niðurstöður og hvaða ályktanir megi draga af þeim í samhengi við þann fræðilega ramma sem kynntur var í upphafi.

Birting greina í Orði og tungu er háð því að handrit sé samþykkt eftir ritrýni og er miðað við að höfundur fái svör eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að skilafrestur rennur út. Innsendar greinar eru ritrýndar nafnlaust: ritrýnar fá ekki upplýsingar um greinarhöfunda og greinarhöfundur ekki upplýsingar um ritrýna.  

Greinar eru að jafnaði skrifaðar á íslensku en einnig eru birtar greinar á ensku og norrænum m´álum. Útdráttur þarf að fylgja með bæði á ensku og íslensku auk 3–5 lykilorða á báðum málum. 

Tímaritið er gefið út á prenti og í rafrænni útgáfu á heimasíðu ´Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: www.ordogtunga.arnastofnun.is. 

Skilafrestur greina er að öllu jöfnu  1. september. Greinaköll birtast að vori ár hvert.

Greinar sem birtast í tímaritinu eru metnar til tíu stiga í Matskerfi opinberra háskóla.

Höfundar sem vilja senda inn grein til birtingar í tímaritinu er bent á að lesa í Leiðbeiningar um frágang greina.  Áður en greinar eru sendar til birtingar eru höfundar beðnir um að kynna sér siðareglur stofnunarinnar.

Ritstjórn vefsins hefur netfangið ordogtunga@arnastofnun.is.