Upplýsingar til ritrýna

Tímaritið Orð og tunga birtir greinar sem lúta að máli og málfræði. Lögð er áhersla á greinar um orðfræði, þ. á m. nafnfræði og íðorðafræði, og greinar um orðabókafræði og orðabókagerð, sem og fræðilegar greinar um málrækt og málstefnu. Sem dæmi má nefna greinar um tiltekin málfræðileg, málfélagsleg, nafnfræðileg eða orðabókafræðileg viðfangsefni; greinar um einstakar orðabækur eða tegundir orðabóka, íðorðasöfn eða aðrar handbækur; einnig greinar um einkenni og sögu íslensks orða- og nafnaforða eða afmarkaðs hluta hans, jafnvel einstök orð, þ. á m. nýyrði og annað sem lýtur að endurnýjun orðaforðans.

Tímaritið birtir greinar á íslensku, ensku og norrænum málum. Útdráttur þarf að fylgja öllum greinum bæði á íslensku og ensku. Þar að auki eru höfundar beðnir um að leggja til 3–5 lykilorð sem einnig þurfa að birtast á báðum málum.

Til að grein fáist birt í tímaritinu þarf höfundur að hafa eitthvað nýtt fram að færa. Nýnæmi getur falist í kenningarlegu framlagi, aðferðafræði og því að ný gögn séu kynnt.  Efni sem birst hefur áður í bókum eða fræðitímaritum er að öðru jöfnu ekki tekið til birtingar í tímaritinu.

Til að fræðileg grein teljist hæf til birtingar er gert ráð fyrir eftirfarandi þáttum:

a) Greinagóðri lýsingu á tilgangi og markmiði rannsóknar.
b) Yfirliti yfir skrif annarra fræðimanna og rannsóknir sem tengjast efninu.
c) Umfjöllun um aðferðafræði rannsóknarinnar og þær kenningar sem liggja að baki, þ.m.t. greinargóðar útskýringar á helstu hugtökum sem notast er við.
d) Greiningu á þeim gögnum sem aflað var.
e) Greinargerð um helstu niðurstöður og hvaða ályktanir megi draga af þeim í samhengi við þann fræðilega ramma sem kynntur var í upphafi.

Niðurstöður ritrýni geta verið ferns konar:

  1. Að hún sé hæf til birtingar í tímaritinu, eftir atvikum með minni háttar breytingum og lagfæringum í samræmi við meðfylgjandi ábendingar (t.d. frágangur, málfarsleg atriði og önnur minniháttar atriði).
  2. Að hún sé hæf til birtingar í tímaritinu ef á henni eru gerðar verulegar breytingar í samræmi við meðfylgjandi ábendingar (t.d. breytingar á uppbyggingu og innihaldi greinar)
  3. Að mælt sé með því að greinin verði endursamin og síðan send tímaritinu til mats á nýjan leik.
  4. Að hún sé ekki hæf til birtingar í tímaritinu.

Verði umsagnaraðilar ekki sammála um niðurstöðu gerist það annað hvort að ritstjórn sker úr um vafaatriði eða þriðji umsagnaraðili er kallaður til og ræður hans álit þá niðurstöðu.

Gæta þarf nærfærni í samskiptum við greinarhöfunda. Þeir eru stundum ungir fræðimenn að stíga sín fyrstu skref á braut greinaskrifa og mikilvægt að þeir upplifi það að fá viðbrögð við grein – hvort sem henni er hafnað eða ekki – sem jákvæða og lærdómsríka reynslu.

Ritrýnum er frjálst að koma með ábendingar um hluti sem betur mættu fara, án þess að gera breytingar að skilyrði fyrir birtingu. Niðurstöður ritrýni þurfa hins vegar að vera skýrar um það hvort grein sé samþykkt til birtingar og ef hún er samþykkt með fyrirvara um breytingar, hverjar þær séu. Athugasemdirnar geta varðað niðurröðun efnis, hvort samfellu skorti í röksemdafærslu, hvort fullyrðingar séu órökstuddar, vinnubrögð ófagleg, heimildanotkun ósamkvæm, fyrri rannsóknir á efninu sniðgengnar, stíl og framsetningu ábótavant o.s.frv. Umsagnaraðilar eru beðnir um að koma með tillögur um styttingar ef ritgerðin er í lengra lagi og benda á óþarfa útúrdúra eða leiðir til að gera ritgerðina hnitmiðaðri og læsilegri. Leiðbeiningar um frágang greina má sjá hér.

Ritrýnar eru vinsamlegast beðnir um að kynna sér siðareglur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.