Um þýska forskeytið an- og stutta viðdvöl þess í íslensku
Útdráttur
Í greininni er gefið sögulegt yfirlit yfir notkun þýska forskeytisins an- í íslensku. Eitt einangrað dæmi (annáma) má finna í texta frá miðri 16. öld, en ef marka má varðveitta texta voru orð af þessari gerð ekki tekin að láni fyrr en eftir 1600. Um það bil 60 orð með forskeytinu an- koma fyrir í söfnum Orðabókar Háskólans, frá tímabilinu frá því um 1600 og fram á miðja 20. öld. Mörg þeirra eru mjög sjaldgæf og um 60% þeirra koma bara fyrir einu sinni eða tvisvar. Flest orðin virðast hafa verið tekin að láni á 18. og 19. öld, en mjög fá þeirra hafa skotið rótum í málinu og forskeytið hefur aldrei orðið virkt í íslenskri orðmyndun. Hreintungustefnan á 19. og 20. öld leiddi til þess að flest þessara orða hurfu úr málinu ásamt fjölda annarra tökuorða úr dönsku og þýsku og fullyrða má að engin þeirra hafi lifað til þessa dags.