Beyging orða með viðskeytunum -ing og -ung
Söguleg þróun
Útdráttur
Í greininni er rætt um beygingarsögu kvenkynsorða með viðskeytunum -ing og -ung, orða eins og t.d. sýning og lausung, og skýringa leitað á helstu einkennum hennar. Viðfangsefnið er skoðað í heimildum frá ýmsum tímum og í sögulegu og samtímalegu ljósi hvers tímabils.
Í fornu máli voru orð með viðskeytinu -ing yfirleitt endingarlaus í þolfalli en enduðu á -u í þágufalli. En dæmi um þolfallsendingu frá elstu tímum sýna að beygingin hefur þá þegar verið byrjuð að falla að beygingu langflestra annarra kvenkynsorða en þá voru þolfall og þágufall eintölu langoftast eins. Síðar varð sú beyging skyldubundin, með einni undantekningu þó. Enda þótt enn megi sjá dæmi um forna beygingu ing-orðanna er slík notkun nánast bundin við hátíðlegt mál eða formlegt.
Heimildum ber ekki saman um það hvort munur hafi verið á beygingu orða með viðskeytunum -ing og -ung í elsta máli. Á 16. öld er hann þó orðinn ljós og felst í því að ung-orðin eru endingarlaus í þolfalli og þágufalli. Flestar heimildir allt til þessa tíma styðja það. Ýmislegt í samtímamáli gæti þó bent til þess að munurinn væri að hverfa, að orð með viðskeytunum -ing og -ung gætu farið að beygjast eins.
Einn mikilsverðasti áhrifavaldur í beygingarsögu ing- og ung-orðanna er greinirinn. Telja verður að hann hafi skipt miklu máli við að endingin -u festist í sessi í þolfalli. Í heild sýna niðurstöðurnar að breytingar á beygingu áðurnefndra orða hafa aldrei verið tilviljanakenndar heldur hafa þær orðið vegna þeirra kerfislegu vensla sem máli skipta hverju sinni enda hefur stefna málsins verið sú að útrýma óreglu og koma á meira jafnvægi innan þess tiltekna kerfis sem um ræðir.