Annarleg sprek á ókunnugri strönd. Tökuorð í íslensku fyrr og nú
Höfundar
Ásta Svavarsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum / Hásk´óli Íslands
Höfundur
Veturliði Óskarsson
Kennaraháskóli Íslands
Höfundur
Útdráttur
Tökuorð í íslensku eru tiltölulega fá miðað við mörg önnur tungumál en eigi að síður hafa erlend áhrif sett mark á íslenskan orðaforða. Í greininni er fjallað um tökuorð í íslensku með dæmum frá tveimur tímaskeiðum í íslenskri málsögu. Hið fyrra er 14. og 15. öld sem einkenndust af miðlágþýskum áhrifum í Norður-Evrópu, þ. á m. á Íslandi þótt þar væru áhrifin hvorki jafnmikil né djúpstæð og í skandínavísku málunum. Í íslenskum fornbréfum fram til um 1500 má finna hátt í 3.000 dæmi um 500–600 mismunandi orð af miðlágþýskum uppruna. Um rúman helming þeirra er einungis eitt eða tvö dæmi í fornbréfunum og tiltölulega lítill hluti þeirra hefur haldist sem lifandi hluti orðaforðans. Hið síðara er nútíminn, fyrst og fremst mál 20. aldar þegar tökuorð koma fyrst einkum úr dönsku og síðar úr ensku. Nýlegar rannsóknir á íslenskum textum af ýmsu tagi, bæði talmáli og ritmáli, hafa sýnt að í þeim er hlutfall nýlegra orða af erlendum uppruna lágt (vel innan við 0,5% lesmálsorða að meðaltali) en jafnframt að hlutfall þeirra er talsvert breytilegt eftir eðli textans og málaðstæðum auk þess sem ljóst er að ungt fólk notar meira af aðkomuorðum en þeir sem eldri eru. Um mörg orðanna sem fyrir koma í textunum er einungis eitt dæmi og leiða má líkur að því að a.m.k. sum þeirra sem eru lítt löguð að íslensku málkerfi hafi verið notuð sem erlend orð þótt í íslensku samhengi sé. Önnur aðkomuorð koma oftar fyrir og mörg orð hafa verið löguð að íslenskum framburði, rithætti og beygingarkerfi.
Þótt sjónum sé einkum beint að umfangi orða af erlendri rót sem koma fyrir í íslenskum textum á umræddum tímabilum, fjölda þeirra, útbreiðslu og tíðni, er einnig vikið lítillega að einkennum orðanna og þróun þeirra í málinu. Auk þess er nokkuð fjallað almennt um erlend máláhrif og helstu forsendur þeirra, þ.e.a.s. ytri aðstæður í málsamfélaginu, kunnáttu í erlendu tungumáli og útbreiðslu hennar, svo og nýjungar sem gjarnan fylgja tengslum við önnur samfélög og kalla á ný hugtök í málinu.