Klambrar saga. Síðari hluti.
Um orðið klömbur í örnefnum
Útdráttur
Í fyrri hluta “Klambrar sögu” (Orð og tunga 10:61–93) var rakinn ferill kvenkynsorðsins klömbur ‘þrengsli, klemma’ og afleiddra orða, en í þessum hluta er nafnið tekið til meðferðar sem bæjarnafn og liður í örnefnum.
Vitað er um þrjá bæi með nafninu Klömbur síðan á 14. öld: undir Eyjafjöllum, í Vesturhópi í Húnavatnssýslu og í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Auk þess eru munnmæli um kotbýli með þessu nafni í Haukadal í Dalasýslu. Allir þessir bæir eru kenndir við einhvers konar þrengsli eða kví. Býlið Klömbur í Reykjavík, reist 1925, fékk nafn sitt frá Klömbur í Vesturhópi.
Upphafleg beyging bæjarnafnsins virðist hafa haldist fram undir 1800, en fer þá að riðlast. Klömbur undir Eyjafjöllum fékk myndina Klambra um 1800. Hins vegar héldu norðlensku bæirnir oftast nefnifallinu Klömbur, en nafnið oft beygt sem fleirtala væri. Myndin Klömbrur leitar þá einnig á í nefnifalli. Í Reykjavík breyttist nafnið Klömbur fljótlega, oftast í Klömbrur (kv. ft.) eða Klambrar (kk. ft.), áður en býlið lagðist af. Nú er Klambrar orðið nafn á leikskóla í höfuðborginni. Nafnið er myndað á sama hátt og Eiðar, Gásar, Laugar o.fl.
Sagt er frá örnefnunum Klömbrur og Klembrur nálægt Innra-Hólmi á Akranesi og loks gerð grein fyrir forliðunum klambra(r)- og klömbru- í örnefnum.