Þórarinn í þágufalli
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.20.3Útdráttur
Nafnið Þórarinn beygist nú á dögum yfirleitt alveg eins og að það gerði að fornu: Þórarinn– Þórarin – Þórarni – Þórarins. Hefðbundin þágufallsmynd, Þórarni, er þó aðeins ein af fimm þágufallsmyndum sem heimildir eru um. Hinar fjórar eru Þórarin, Þórarini, Þórarinum og Þórarininum. Elst þessara fjögurra nýjunga virðist vera Þórarinum sem var komin upp um 1700 á Suðurlandi en þaðan breiddist hún hugsanlega út. Heimildir eru um hana víða á landinu, á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Um þágufallsmyndina Þórarin eru dæmi frá síðari hluta 18. aldar og Þórarini kemur fyrir í máli manns sem fæddur var 1850. Um sjaldgæfustu og yngstu nýjungina, Þórarininum, eru aðeins dæmi frá 20. öld (í Rangárvallasýslu og Barðastrandarsýslu) og hún tíðkast vísast ekki lengur. Hinum þremur bregður stundum fyrir, og þá helst Þórarin og Þórarini.