Að eiga það sem maður er

Um sambönd á borð við 'helvítið þitt' og annað áþekkt

  • Katrín Axelsdóttir Háskóli Íslands
orðasambönd, mynstur, skammaryrði, virkni, órjúfanleg eign

Útdráttur

 

Í greininni er fjallað um tvö eignarmynstur í íslensku, X þinn (s.s. helvítið þitt, skömmin þín) og X á honum/henni (s.s. helvítið á honum, skömmin á henni) og þau borin saman. Þau eiga það sameiginlegt að eigandinn í segðinni samsvarar eigninni, ólíkt öðrum segðum með eignartáknun. Margt er þó ólíkt með þessum mynstrum. X þinn á sér langa sögu í málinu. Það var til í fornu máli en setningafræðilega var það notað á fjölskrúðugri hátt en nú. Mynstrið er geysilega frjótt. Það er einkum bundið við skammaryrði og inn í það virðist mega setja nánast hvaða skammaryrði sem er. En í nútímamáli það einnig oft notað í jákvæðu samhengi, jafnvel hástemmdu lofi, en um slíkt hafa ekki fundist dæmi í fornu máli. Mynstur sambærileg X þinn eru til í öðrum Norðurlandamálum (din X). Þau mynstur koma fyrir í jákvæðu samhengi en í mun minna mæli en í íslensku. X á honum/henni virðist ekki eiga sér langa sögu í málinu og sambærileg mynstur þekkjast ekki í skyldmálunum. Mynstrið er miklu lokaðra en X þinn, innan þess koma aðeins fyrir skammaryrði og þau skammaryrði sem fundust við þessa athugun eru teljandi á fingrum. Þá eru flest samböndin innan mynstursins lítið þekkt.

Útgáfudagur
2023-06-13
Tegund
Ritrýndar þemagreinar