„annaðhvort með dönskum hala eða höfði, enn að öðru leiti íslenskt“

Um tengsl íslensku og dönsku á 19. öld og áhrif þeirra

Höfundar

  • Ásta Svavarsdóttir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Höfundur

DOI:

https://doi.org/10.33112/ordogtunga.19.3

Útdráttur

Það er útbreidd skoðun að mikilla erlendra áhrifa hafi gætt í íslensku á 18. og 19. öld, fyrst og fremst frá dönsku. Hún styðst einkum við lýsingar og ummæli samtímamanna og einstök dæmi um dönskuskotið málfar. Aftur á móti hafa umfang og einkenni áhrifanna lítið verið rannsökuð skipulega. Íslenskt mál og málaðstæður á 19. öld eru í brennidepli í greininni með áherslu á tengsl íslensku og dönsku og áhrif þeirra. Annars vegar er fjallað um ýmsa ytri þætti sem snerta tengsl málanna og líkurnar á dönskum áhrifum á íslensku. Þar er einkum um að ræða stöðu íslensku gagnvart dönsku, bæði innan konungs­ríkisins í heild og á Íslandi. Einnig eru afstaða og viðhorf til íslensku í Danmörku svo og viðhorf til dönsku og danskra áhrifa á íslensku mikilvægir ytri þættir. Þá eru ýmis ummæli um mál og málnotkun úr samtímatextum rakin í greininni til að varpa ljósi á viðhorf gagnvart erlendum áhrifum. Hins vegar er gerð grein fyrir tveimur rannsóknum á erlendum áhrifum í orðaforða og niðurstöðum þeirra. Rannsóknirnar byggðust á tveimur málsöfnum með 19. aldar textum, öðru með blaða- og tímaritatextum en hinu með persónulegum einkabréfum. Textasöfnin geyma því ólíkar textagerðir en í báðum tilvikum eru þetta textar sem tengjast daglegu lífi almennra málnotenda. Fyrri rannsóknin snerist um orð með tökuaðskeytunum an-, be-, -heit og -era sem þegar áttu sér langa sögu í íslensku. Hún tók til textasafnanna í heild og beindist einkum að umfangi slíkra orða ásamt samanburði milli textagerða og tímabila. Orð af þessu tagi reyndust vera hlutfallslega mjög fá í textunum og þeim fór fækkandi, sérstaklega í blöðum. Síðari rann­sóknin tók til orða af erlendum uppruna í blaðatextum frá síðasta fjórðungi aldarinnar og einskorðaðist við orð sem þá voru nýleg í íslensku. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að nýleg orð af erlendum uppruna voru í heild einungis 0,37% af heildarorðafjöldanum í textunum. Þeim fjölgaði eigi að síður hlutfallslega frá 1875 til 1900 og slík orð reyndust líka hafa verið fyrirferðarmeiri í Reykjavíkurblöðunum en í blöðum sem gefin voru út annars staðar á landinu. Það sýndi sig líka að aðkomuorð hefðu verið hlutfallslega fleiri í auglýsingum en ritstjórnartextum og því kynni fjöldi auglýsinga í einstökum blöðum að hafa haft áhrif á niðurstöður sem varða samanburð milli ára og milli útgáfustaða.

Meginniðurstöður rannsóknanna í heild voru þær að erlend áhrif í orðaforða, eins og þau birtust í textunum, hefðu verið mun minni en ætla mætti af ummælum og lýsingum samtímamanna.

Niðurhal

Útgefið

2017-06-01

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar