Íslenskukennsla í Bessastaðaskóla 1806–1846 og á fyrstu árum Reykjavíkurskóla
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.19.2Útdráttur
Talið er að Bessastaðaskóli (1805‒1846) hafi stuðlað að málhreinsun og að þar hafi orðið til málviðmið sem tungan býr að enn í dag. Mjög lítið hefur þó verið fjallað um íslensku sem námsgrein í skólanum. Hér er sagt frá niðurstöðum rannsókna á íslenskukennslunni sem beindust mest að skjalasöfnum skólayfirvalda en Skólastjórnarráðið í Danmörku gaf fyrirmæli um kennsluna, þar á meðal um móðurmálskennslu.
Íslenska var alla tíð kennd í Bessastaðaskóla en uppistaða námsins var stílagerð sem fólst mest í þýðingum úr dönskum og latneskum lestrarbókum en stundum var fjallað um íslenskar bókmenntir. Íslenskunámið fór þó ekki síður fram í latínu- og grískutímum og jafnvel líka dönsku- og sögutímum því að þýddar námsbækur voru ekki til og hver kennari hlaut að þýða kennsluefni sitt á íslensku í tímunum og nemendur að skrifa niður. Allar heimildir herma að þar hafi miklir málvöndunarmenn verið að verki, einkum þeir Sveinbjörn Egilsson, sem kenndi grísku, sögu og dönsku, og Hallgrímur Scheving sem kenndi latínu.
Vanbúið húsnæði og þrengsli stóðu skólanum mjög fyrir þrifum í faglegum efnum og ljóst er að íslenskukennslan leið fyrir þessi vandræði. Kennarar í íslensku voru fimm þau fjörutíu ár sem hann starfaði, þ.e. Guttormur Pálsson, Jón Jónsson (jr), sr. Árni Helgason, dr. Sveinbjörn Egilsson og Björn Gunnlaugsson.
Miklar breytingar urðu á námi og kennslu í íslensku á fyrstu árunum eftir að skólastarf fluttist frá Bessastöðum til Reykjavíkur 1846. Reglugerðir kváðu þá á um stöðu íslensku í skólastarfinu, inntak kennslunnar og framkvæmd prófa. Kennslustundum fjölgaði, námsefnið varð fjölbreyttara og kröfur til kennara og nemenda jukust. Sveinbjörn Egilsson var fyrsti kennari námsgreinarinnar en lengst og mest kenndi Halldór Kr. Friðriksson íslensku við skólann. Námsefnið var íslensk málfræði og bókmenntir og mikil áhersla lögð á ritgerðir og stíla nemenda.
Réttritun málsins var að mótast um það leyti sem Reykjavíkurskóli tók til starfa og stílar skólapilta sýna að sú þróun var hafin undir handleiðslu Sveinbjarnar. Halldór Kr. Friðriksson samdi kennslubækur í málfræði og réttritun og nemendur lásu bæði íslenskar fornbókmenntir og samtímaskáldskap. Reglum skólans um réttritun var fylgt fast eftir í tíð Halldórs enda jafnan kenndar við hann eða nefndar skólastafsetningin. Ritsmíðar nemenda benda til að um 1850 hafi ritmálið verið að breytast ört í skólanum og að stafsetningarreglur með stoð í forna málinu hafi þá þegar fest sig í sessi. Þær urðu textaviðmið fram undir aldamótin 1900 og eru að flestu leyti enn.