Af "setubingum" og "hugvitsverkfærum"
Orðfæri í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.17.4Útdráttur
Á árunum 1832-1834 ferðaðist Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson um Evrópu og víðar og tók þannig þátt í evrópskri menntahefð Grand Tour-ferðalaga. Eftir heimkomu samdi hann uppkast að ferðabók sem honum tókst hins vegar aldrei að ljúka. Löngu síðar tók Jakob Benediktsson saman drögin og Ferðabók Tómasar Sæmundssonar kom út 1947. Í greininni er stuttlega farið yfir sögu bókarinnar, markmið með henni og viðhorf Tómasar til málnotkunar. Síðan er sjónum sérstaklega beint að orðfæri í bókinni. Höfundur stóð frammi fyrir tvíþættum vanda. Í fyrsta lagi treysti hann ekki íslenskufærni sinni og fannst nauðsynlegt að láta leiðrétta texta sína, ekki síst til að uppfylla strangar kröfur annarra Fjölnismanna. Í öðru lagi þurfti hann að koma til skila þekkingu sem hann aflaði sér í útlöndum og var því á erlendum tungumálum. Viðfangsefni bókarinnar er framandi menningarheimur og margt sem íslenskum lesendum var ekki kunnugt um og skorti orðaforða yfir. Í viðleitni sinni til að nota sem fæstar erlendar slettur og tökuorð stundaði höfundur umfangsmikla nýyrðasmíð en til betri skilnings lét hann oft fylgja erlend orð eða aðrar útskýringar.