Gullbrá og Menglöð
Ástargyðjan afskræmd?
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.17.8Útdráttur
Greinin fjallar um örnefnin Gullbrárfoss og Menglaðarfoss og þjóðsögur sem þeim tengjast en þar segir frá tröllkonunum Gullbrá og Menglöðu sem búa í fossunum. Nöfnin Gullbrá og Menglöð eru talin falleg, öfugt við tröllseðli kvenvættanna tveggja. Menglöð sú er býr í Menglaðarfossi ber Freyjunafn og kallar það á nánari athugun. Enn fremur vekur forvitni að tveir Gullbrárfossar eru á sama svæði og gæti það sýnt að hið óvenjulega heiti Gullbrá hafi haft mikið vægi. Þjóðsögurnar benda til þess að Menglöð og Gullbrá hafi átt sér bjartara líf í fyrndinni. Í greininni eru sjálf nöfnin athuguð sérstaklega og einnig í ljósi þjóðsagnanna tveggja. Niðurstaðan er sú að bæði þessi nöfn tákni Freyju þar sem þau koma fyrir í örnefnunum tveimur, sem og í samsvarandi þjóðsögum. Hinar meintu birtingarmyndir Freyju eru í tröllslíki í þjóðsögunum og bendir það hugsanlega til afskræmingar, ef ekki djöfulgervingar, heiðinna goða eftir kristnitöku. Það er rætt nánar en sérstaklega er fjallað um Freyju á Íslandi í heiðnum sið. Niðurstaða greinarinnar er sú að Freyja birtist að öllum líkindum í dulargervi sem Gullbrá og Menglöð í örnefnunum og þjóðsögunum.