Um nýyrði sem tengjast tölvum og tækni
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.21.6Útdráttur
Síaukin áhrif ensku á íslenskt málsamfélag hafa valdið mörgum áhyggjum af stöðu og framtíðarhorfum íslensku og hafa nýlegar rannsóknir sýnt að slíkar áhyggjur eru sennilega ekki tilefnislausar. Mikilvægt þykir fyrir lífvænleika íslensku að hún sé bæði nothæf og notuð á öllum sviðum samfélagsins og þá skipta viðhorf málhafa og afstaða þeirra til ýmissa þátta málsambýlis íslensku og ensku miklu máli.
Í greininni eru birtar niðurstöður úr nýlegri rannsókn á viðhorfum u.þ.b. 350 Íslendinga til nýyrðamyndunar og notkun þeirra á nokkrum tæknitengdum nýyrðum. Farið er stuttlega yfir hugtakanotkun, mögulegar ástæður fyrir mismikilli velgengni ólíkra nýyrða, fyrri rannsóknir á þessu sviði sem og möguleg áhrif nýyrðamyndunar og –notkunar á lífvænleika íslensku.
Sú umfjöllun er svo tengd við niðurstöður rannsóknarinnar sem benda m.a. til þess að almennur samhljómur sé, á meðal allra aldursflokka, um að mynda eigi íslensk nýyrði fyrir erlend hugtök þótt hlutfall jákvæðra lækki aðeins með lækkandi aldri. Þegar kemur að vali á milli íslenskra nýyrða og samsvarandi aðkomuorða höfðu nýyrðin vinninginn í fleiri tilvikum en þó má greina augljósan mun á vali eftir því um hvaða nýyrði er að ræða og eru tekin fyrir nokkur dæmi um mögulegar skýringar, s.s. tegund nýyrðis, útbreiðsla, aldur o.fl.