Íslenska og enska í íslensku háskólastarfi

  • Ari Páll Kristinsson Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Málræktarsviði / Háskóli Íslands
  • Haraldur Bernharðsson Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
háskólar, enska, íslenska, kennslutungumál, tungumál fræðilegra skrifa

Útdráttur

Í greininni er gerð úttekt á sambúð íslensku og ensku í íslensku háskólastarfi. Íslensku háskólarnir sjö sérhæfa sig á mismunandi sviðum en þurfa allir annars vegar að sinna innlendum kröfum um rannsóknir, kennslu, þjónustu og þekkingarmiðlun og hins vegar að taka við erlendum stúdentum og starfsmönnum og taka þátt í alþjóðastarfi vísindamanna. Samkvæmt lögum er íslenska mál háskóla eins og annarra íslenskra skóla og nú hafa flestir háskólarnir birt málstefnuskjöl sem tilgreina íslensku sem aðaltungumál og leggja áherslu á íslenskan íðorðaforða. En ytri aðstæður kalla á að enska gegni hér einnig lykilhlutverki.

Nú eru um 6% nemenda og akademískra starfsmanna erlendir og háskólakennslan fer að hluta til fram á ensku. Hlutfall ensku er þó breytilegt eftir tegundum og námsframboði háskólanna (0%‒23% eftir skólum) og eftir námsstigum (minna í grunnnámi, meira í framhaldsnámi). Ríkar kröfur eru gerðar um að akademískir starfsmenn birti niðurstöður sínar á alþjóðlegum vettvangi. Um fjórir fimmtu hlutar fræðilegra skrifa starfsmanna tveggja stærstu háskólanna eru á ensku en miklu munar á fræðasviðum; um helmingur er á ensku í félags-, mennta- og hugvísindum en nærri 97% í verk- og náttúruvísindum og nú eru doktorsritgerðir innan heilbrigðis-, verk- og náttúruvísinda eingöngu skrifaðar á ensku.

Útgáfudagur
2020-07-07
Tegund
Ritrýndar greinar