Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Regluverk eða beygingar
Útdráttur
Í greininni er fjallað um Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) sem er safn ríflega 270 þúsund beygingardæma, með yfir 5,8 milljón beygingarmyndum. Tilgangurinn með BÍN er margþættur og verkið er ætlað til nota í máltækni, orðabókargerð og til upplýsingar fyrir almenning á vefnum. Þrátt fyrir langa hefð í málfræðirannsóknum var ljóst frá upphafi að gögn til þess að setja fram reglukerfi fyrir íslenska beygingakerfið væru ekki tiltæk, ef markmiðið er að sýna allar og aðeins þær myndir sem raunverulega eru til í nútímamáli. Reglukerfi sem byggt er á fyrirliggjandi gögnum í upphafi verks hefði orðið bæði van- og ofvirkt, þ.e. það hefði sleppt beygingarmyndum og búið til myndir sem enginn fótur er fyrir. Vegna þessa var ákveðið að búa til gagnasafn með beygingardæmum þar sem allar myndir eru vistaðar. Í greininni er sagt frá vinnulagi við gerð BÍN og heimildum. Í upphafi var orðaforðinn í BÍN fenginn úr orðabókarefni en með tilkomu Markaðrar íslenskrar málheildar (MÍM) gefst í fyrsta sinn tækifæri til að skoða beygingarkerfið í ljósi raungagna svo nokkru nemi. Niðurstaða af samanburði á BÍN og MÍM er sú að stærð markamengisins valdi gagnaskorti og því er tæplega hægt að lýsa íslenska beygingarkerfinu eingöngu út frá málheild.