Orðabókarstörf Konráðs Gíslasonar
Útdráttur
Í greininni er fjallað um aðkomu Konráðs Gíslasonar að orðabókagerð en Konráð er betur þekktur sem málfræðingur. Á eftir stuttum inngangi er í öðrum kafla rætt um An Icelandic-English dictionary frá 1874 sem Konráð vann að í um fjórtán ár en fékk ekki að fylgja til enda. Í þriðja kafla er rætt um Dansk-íslenska orðabók sem Konráð gaf út 1851. Meginfyrirmyndin var Dansk Ordbog eftir Christian Molbech sem gefin var út 1833. Í 3.1 er samanburður á einum dálki í orðabók Konráðs á samsvarandi texta hjá Molbech. Sýnt er að Konráð hefur fylgt Molbech og nýtt sér skýringardæmi hans. Í 3.2 eru þau orð sem Konráð taldi aðkomuorð borin að aðkomuorðabók Ludvigs Meyers þar sem Molbech sniðgekk slík orð, en í 3.3 er rætt um aðrar heimildir hans, einkum hvað hann nýtti sér af nýyrðum Jónasar Hallgrímssonar. Kafli 3.4 snýr að viðtökum við dönsku orðabókinni, sem ekki voru miklar í samtímanum, og rætt um dansk-íslenska orðabók Jónasar Jónassonar á Hrafnagili. Í fjórða kafla er minnst á aðrar orðabækur sem Konráð segist hafa verið að vinna að, einkum forníslenska orðabók með dönskum skýringum, en ekkert finnst um hana nú.