Á Borgarfirði eystri - á Borgarfirði eystra

Hvaða orðflokki tilheyrir eystra?

  • Margrét Jónsdóttir Háskóli Íslands
söguleg beygingarfræði, Hliðstæður, miðstig lýsingarorða, örnefni

Útdráttur

Tilgangur greinarinnar er að skýra út eðli orðsins/orðmyndarinnar eystra í sambandi við Borgarfjörð, þ.e. hvort um séað ræða miðstig lýsingarorðs eða atviksorð.

Öll eiginnöfn eru í eðli sínu ákveðin. Miðstig lýsingarorða getur, auk nútímamálsbeygingar, beygst á fornan hátt með slíkum orðum, sbr. Minna–Núp og Borgarfjörð eystra. Kostirnir eru því tveir. Sé samsvarandi nafnorð á hinn bóginn samnafn beygist miðstigið aðeins eftir nútímabeygingu. Flest miðstigsformanna sem rætt er um eru án frumstigs; sum miðstigsorðin eru jafnvel án samanburðarmerkingar og hafa miklu fremur andstæðumerkingu.

Niðurstaðan er sú að flest bendir til þess að málnotendur kjósi að líta á eystri í samböndum eins og t.d. Borgarfjörður eystri eða Hellisheiði eystri sem fallorð, þ.e. lýsingarorð. Sem slíkt er staða þess eðlileg: Það kveður nánar á um nafnorðið sem það stendur með og saman mynda þau samsettan nafnlið. Það á síður við um nafnorðið og atviksorðið enda hlutverk atviksorðs auðvitað annað en lýsingarorðs. En vegna þeirrar rökréttu heildar sem lýst var kjósa menn yfirleitt að sambeygja orðin enda það eina eðlilega frá setningafræðilegum sjónarhóli.

Útgáfudagur
2020-08-15
Tegund
Smágreinar