Af hverju góðlátlegur en ekki *góðleglátur?

Um leyfilegar og óleyfilegar viðskeytaraðir í íslensku

  • Þorsteinn G. Indriðason Háskólinn í Bergen
viðskeyti, valhömlur, viðskeytaraðir

Útdráttur

Í greininni er sagt frá rannsókn á viðskeytaröðum í íslensku með nafnorðs- og lýsingarorðsviðskeytum í fyrsta sæti, hversu algengar þessar raðir eru og hvaða valhömlur (e. selectional restrictions) eru ráðandi í viðskeytingunni. Þessar raðir voru fengnar þannig að 26 viðskeyti sem mynda nafnorð voru pöruð við 22 viðskeyti sem tengjast nafnorðum og sömuleiðis voru 9 viðskeyti sem mynda lýsingarorð pöruð saman við 12 viðskeyti sem tengjast lýsingarorðum. Eftir stóð 661 möguleg röð þegar vinsaðar höfðu verið út raðir með samskonar viðskeytum (sbr. t.d. -legleg). Leitað var að staðfestum röðum meðal þessara mögulegu raða í Íslenskum orðasjóði og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og fundust 36 slíkar, 19 raðir með nafnorðsviðskeyti í fyrsta sæti og 17 raðir með lýsingarorðsviðskeyti í fyrsta sæti. 

Mögulegar ástæður fyrir hlutfallslega fáum staðfestum röðum eru ræddar. Valhömlur spila stórt hlutverk til þess að skýra þetta. Sum viðskeyti geta t.d. ekki tengst grunnorðum sem sjálf eru viðskeytt þó þau geti hæglega tengst tvíkvæðum grunnorðum (sbr. t.d. -lát). Að auki virðist nær ómögulegt að breyta röð viðskeyta innan orðs og sum viðskeyti geta ekki bætt við sig viðskeytum og geta því ekki myndað viðskeytaraðir. Í greininni er einnig fjallað um ‚klofna viðskeytingu‘ þar sem eignarfallsendingar koma á milli tveggja viðskeyta en endingin gerir það að verkum að viðskeytingin getur haldið áfram, sbr. dæmi eins og leikaraskapur. Öll þessi atriði eiga sinn þátt í því að staðfestar viðskeytaraðir eru hlutfallslega fáar í íslensku.  

Útgáfudagur
2021-07-01
Tegund
Ritrýndar greinar