Siðareglur

Siðareglur fyrir útgáfuverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út tvö ritrýnd tímarit: Orð og tungu og Griplu auk margs konar ritrýndra fræðirita, ýmist í bókaformi eða í rafrænni útgáfu á vef. Húsþing stofnunarinnar hefur samþykkt eftirfarandi reglur sem setja ramma utan um réttindi og skyldur ritstjóra, höfunda, ritrýna og forstöðumanns stofnunarinnar hvað varðar útgáfuverkin.

ÁKVÖRÐUNARFERILL

Handrit að fræðiritum og fræðigreinar sem berast tímaritum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru sendar í ritrýni til tveggja sérfræðinga sem leggja mat á fræðilegt gildi þeirra. Ritrýnar fá ekki upplýsingar um höfund verkanna og höfundar vita ekki hverjir ritrýna. Ritstjórar taka svo við mati ritrýna og senda höfundi umsögn og leiðbeiningar um framhald. Til að fræðirit eða tímaritsgrein sem samþykkt er með breytingum sé gefið út eða birt þurfa höfundar að bregðast við tilmælum ritstjóra og senda nýja útgáfu innan ákveðins tímaramma. Athygli skal vakin á því að ritstjóri tekur ávallt endanlega ákvörðun í hverju máli fyrir sig og höfundum ber að virða hana.

Stofnun Árna Magnússonar hefur jafnrétti allra að leiðarljósi.

SKYLDUR HÖFUNDA

Gæði rannsókna

Höfundar greina eða annarra verka sem byggjast á grunnrannsóknum skulu veita lesendum greinargóðar upplýsingar um framkvæmd rannsóknanna og fjalla svo um niðurstöðurnar á hlutlægan hátt. Einnig ber þeim að kynna öll gögn sem rannsóknirnar byggjast á. Ritrýnd grein ætti að veita nægar upplýsingar til að hægt sé að endurtaka rannsóknina þar sem það á við. Með öllu er óheimilt að birta niðurstöður sem búið er að hagræða eða falsa vísvitandi.

Aðgengi og varðveisla gagna

Ætlast er til að höfundur geti veitt ritstjóra aðgang að hrágögnum ef hann óskar þess. Höfundi ber að varðveita öll rannsóknargögn eftir útgáfu greinar eða fræðirits.

Hugmynda- og ritstuldur

Höfundum ber að tryggja það að texti og hugmyndir séu þeirra eigin. Ef notast er við texta eða hugmyndir annarra ber að tryggja réttar tilvísanir sem skráðar eru samkvæmt leiðbeiningum tímaritsins.

Greinar um sama efni

Almennt gildir sú regla að ekki er tekið við tímaritsgreinum sem hafa verið birtar áður eða eru til umsagnar í öðrum tímaritum. Í einstaka tilfellum má réttlæta birtingu greina sem hafa áður verið birtar á öðru tungumáli. Þó ber að gæta þess að vitna ávallt í upprunalegu greinina.

Meðferð heimilda

Höfundi ber að gæta þess að vísa alltaf í heimildir þar sem það á við. Höfundar eiga að vísa í verk sem hafa haft mótandi áhrif á rannsóknina. Upplýsingar sem hafa borist persónulega á milli manna, t.d. í samtölum eða bréfum, má ekki nota nema með skriflegu leyfi heimildarmanns. Höfundum er óheimilt að vísa í óútgefið efni, t.d. sem þeim hefur verið falið að meta til birtingar, nema með skriflegu leyfi þeirra sem eiga efnið.

Höfundar greina og fræðirita

Aðeins þeir sem eiga veigamikinn þátt í undirbúningi, framkvæmd, túlkun rannsókna eða ritun greinar eða annars verks geta titlað sig sem höfunda að handriti. Öðrum sem koma að rannsókninni má þakka í neðanmálsgrein. Aðalhöfundur ber ábyrgð á því að allir þeir sem taldir eru upp sem meðhöfundar séu það í raun og veru og að þeir hafi lesið yfir og samþykkt handrit í lokaútgáfu áður en það var sent til útgáfu.

Persónuvernd

Höfundur ber ábyrgð á því að farið sé að íslenskum persónuverndarlögum, þ.m.t. að leyfi sé fyrir öflun og meðferð gagna.

Fjármögnun

Höfundi ber að tilgreina fjármögnun verkefna og mögulega hagsmuni sem liggja að baki rannsóknum.

Alvarlegar rangfærslur í útgefnu efni

Ef höfundur uppgötvar alvarlegar rangfærslur í útgefnu efni ber honum að láta ritstjóra vita eins fljótt og auðið er. Höfundur skal þá í samstarfi við ritstjóra birta leiðréttingu eða draga greinina eða verkið til baka. Ef ritstjóri fær tilkynningu frá þriðja aðila um alvarlegar rangfærslur ber höfundi að bregðast við því með því að sýna fram á að hann hafi haft rétt fyrir sér eða senda inn leiðréttingu í næsta hefti ritsins í samvinnu við ritstjóra eða eftir atvikum á annan hátt.

SKYLDUR RITSTJÓRA

Ákvörðun um birtingu

Ritstjórar tímaritanna bera ábyrgð á því að velja hvaða greinar eru gefnar út og ritstjóri fræðirits í samráði við útgáfunefnd. Ritstjóri skal leita til tveggja ritrýna sem eru sérfræðingar á því sviði sem greinin eða verkið fjallar um og ákvörðun um birtingu eða útgáfu er háð því skilyrði að sérfræðingarnir telji greinina standast vísindalegar kröfur. Ef ritrýnar eru ósammála má ritstjóri leita til þriðja aðila. Ritstjóri getur ekki ákveðið að birta grein eða gefa út fræðirit sem ritrýnar telja ekki birtingarhæft. Ákvörðun ritstjóra skal ávallt tekin með tilvísun í útgáfustefnu tímaritsins eða útgáfureglur stofnunarinnar, vísindalegt framlag greinarinnar eða verksins og erindi við lesendur. Annað sem gæti haft áhrif á ákvörðun ritstjóra er m.a. brot á þessum siðareglum (ritstuldur, brot á persónuverndarlögum). Ritstjóri getur, ef hann óskar þess, leitað álits fræðimanns sem situr í ráðgefandi ritnefnd tímarits eða útgáfunefnd stofnunarinnar.

Trúnaður gagnvart höfundum

Ritstjórum ber að halda trúnað gagnvart höfundum og láta engar upplýsingar í té um handrit að tímaritsgrein eða fræðiriti sem borist hafa eða höfunda þeirra. Komi upp vandamál getur ritstjóri þó leitað ráða hjá forstöðumanni stofnunarinnar eða útgáfunefnd.

Tilvísanir í óbirtrar greinar

Ritstjórum er óheimilt að vísa í óútgefið efni sem þeim hefur verið falið að meta til birtingar nema með skriflegu leyfi höfundar.

Við brot á siðareglum

Ritstjórum og útgáfunefnd ber að taka allar ásakanir um brot á siðareglum alvarlega og taka þær fyrir ásamt forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Oftast felur þetta í sér að haft er samband við höfund greinar eða verks til að gefa honum kost á því að svara þeim ásökunum er á hann eru bornar. Í sumum tilfellum gæti þetta leitt til þess að tímaritið þurfi að birta leiðréttingu eða jafnvel draga grein eða verk til baka.

SKYLDUR RITRÝNA

Framlag ritrýna

Ritstjórar tímaritanna bera ábyrgð á því að velja hvaða greinar eru gefnar út en útgáfunefnd og húsþing fjalla um önnur fræðirit ásamt ritstjóra þess. Endanleg ákvörðun um birtingu eða útgáfu byggist m.a. á mati a.m.k. tveggja ritrýna. Ritrýnar byggja niðurstöðu sína á stöðluðu matsblaði þar sem þeir eru beðnir um að fjalla um kosti og galla greinarinnar eða verksins og taka afstöðu til innihalds og frágangs texta. Niðurstöður ritrýna gegna því hlutverki að aðstoða höfunda við að betrumbæta texta. Jákvæð niðurstaða ritrýna tryggir þó ekki birtingu eða útgáfu og er lokaákvörðun um hana ávallt í höndum ritstjóra.

Hæfni og tímarammi

Ritrýnar sem telja sig óhæfa til að meta vísindalegt gildi handrita (t.d. vegna skyldleikatengsla) eða telja sig ekki hafa tíma til að skila niðurstöðum á tilsettum tíma eiga að segja sig frá verkinu eins fljótt og auðið er.

Trúnaður gagnvart höfundi

Ritrýnum ber að fara með handrit í ritrýningu sem trúnaðarmál. Ekki skal sýna eða ræða efni handritsins nema með leyfi ritstjóra.

Hlutlægni

Ritrýnir skal ávallt gæta hlutlægni og byggja gagnrýni á rökum. Athugasemdir um persónu eða eiginleika höfundar eða lítilsvirðandi athugasemdir eru með öllu óviðeigandi.

Mat á heimildum

Ritrýnar skulu benda á þær heimildir sem þeir telja að vanti í handriti höfunda. Ritrýnum ber einnig skylda til að benda ritstjóra á ef þeir sjá augljós líkindi á milli viðkomandi handrits og efnis sem hefur verið birt áður.

Tilvísanir í óbirt verk

Ritrýnum er óheimilt að vísa í óútgefið efni sem þeim hefur verið falið að meta til birtingar nema með skriflegu leyfi höfundar.

 

Húsþing Stofunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

(Reglurnar eru að hluta til byggðar á siðareglum útgáfufyrirtækisins Elsevier.)