Að snarbatna, steingleyma og dauðleiðast

Samtímaleg og söguleg athugun á áhersluforliðum með sögnum í íslensku

Authors

  • Veturliði Óskarsson Author
  • Þorsteinn G. Indriðason Author

DOI:

https://doi.org/10.33112/ordogtunga.26.4

Keywords:

orðmyndun, áhersluforliðir, sagnir, söguleg þróun, kerfisvæðing

Abstract

Greinin fjallar um áhersluforliði með sögnum, fyrirbæri sem lítið hefur verið fjallað um í íslensku og á erlendum vettvangi. Áhersluforliðirnir eru kannaðir bæði frá sögulegum og samtímalegum sjónarhóli. Við efnissöfnun var notast við ýmsa gagnagrunna: Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) sem nær fram á miðja 16. öld, Ritmálsskrána (RMS) sem nær frá miðri 16. öld fram á seinni hluta 20. aldar, Tímarit.is (TÍM) sem nær frá miðri 19. öld fram til dagsins í dag og Risamálheildina (RMH) sem nær yfir nútímamálið, einkum 21. öldina.

Málfræðilegu sambandi áhersluforliða og sagna er lýst og gerð er grein fyrir því hvaða áhersluforliðir geti staðið með sögn og einnig hvers konar sagnir geti staðið með áhersluforliðum. Skoðaðir eru 38 áhersluforliðir á þennan hátt. Einnig er í greininni kannað hvað af þessum áhersluforliðum getur tengst sögnum í elsta máli og þróun áhersluforliða frá elsta máli til nútímamáls er skoðuð sérstaklega. Gerð er úttekt á skyldleika áhersluforliða við kerfisvæðingu, þ.e. að hve miklu leyti áhersluforliðir hafi þróast frá sjálfstæðum orðum og öðlast sérstakan sess í íslensku máli.

Rannsóknin leiddi í ljós að áhersluforliðir með sögnum eru töluvert algengir í nútímamálinu en sárasjaldgæfir í elsta máli, eða fram til um 1540. Hægt er að benda á ákveðna þróun þeirra eftir 1540, þar sem þeir verða smám saman algengari með sögnum þó að ekki hafi fundist dæmi um alla liðina 38 á tímabilinu frá 1540 fram á 20. öld. Áhersluforliðir með sögnum eru flestir einkvæðir sem greinir þá frá áhersluforliðum með lýsingarorðum og nafnorðum sem geta einnig verið tvíkvæðir. Sýnt er fram á að áhersluforliðirnir hafi þróast með kerfisvæðingu frá sjálfstæðum orðum, en í sumum tilvikum eru merkingarleg tengsl áhersluforliðarins og sagnarinnar enn sterk þrátt fyrir kerfisvæðinguna. Málfræðilega má lýsa sambandi áhersluforliða og sagna með umorðun með sögn og áhersluorði, jafnvel tveimur slíkum. Rannsóknin sýnir einnig að áhersluforliðir geta tengst miðmyndarsögnum, áhrifssögnum, áhrifslausum sögnum og blönduðum sögnum, þ.e. sögnum sem geta bæði verið áhrifssagnir og áhrifslausar sagnir. Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að þörf er frekari skoðunar á sögulegri þróun áhersluforliða með lýsingarorðum og nafnorðum en slík rannsókn er þegar til um nútímamálið.

Published

2024-11-15

Issue

Section

Peer-reviewed Articles