Jón Thoroddsen og málstöðlun nítjándu aldar

Nokkur málfarsatriði í skáldsögunni Pilti og stúlku 1850 og 1867

Authors

  • Haraldur Bernharðsson Háskóli Íslands Author

DOI:

https://doi.org/10.33112/ordogtunga.19.4

Abstract

Þau málviðmið sem nú ríkja í íslensku máli urðu að miklu leyti til á nítjándu öld á tímum sjálfstæðisbaráttu og rómantískra viðhorfa til íslenskrar menningar og menningarsögu. Höfuðsmiðir þessarar málstefnu, sem margir hverjir voru háskólastúdentar í Kaupmannahöfn, litu til íslenskra miðaldabókmennta og eldra málstigs í leit að málfyrirmyndum. Æðsta menntastofnun landsins á þessum tíma, Bessastaðaskóli og síðar Lærði skólinn í Reykjavík, lék stórt hlutverk í þróun og útbreiðslu nýs málstaðals, ásamt ýmiss konar rituðu máli, málfræðibókum, prentuðum bókum, tímaritum og blöðum. Hinn nýi málstaðall varð þannig sýnilegur í rituðu máli á opinberum vettvangi.

            Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen kom út 1850, fyrst skáld­sagna á íslensku, og svo aftur í aukinni og endurskoðaðri útgáfu 1867. Hún átti drjúgan þátt í að breiða út og festa í sessi hinn nýja málstaðal. Þessi hugljúfa ástarsaga, uppfull af sveitarómantík og mál- og stíleinkennum fornsagna, naut þegar í stað mikilla vinsælda. Önnur útgáfa 1867 var prentuð í 1.200 eintökum sem verður að teljast gríðarstórt upplag fyrir um 70.000 manna samfélag. Piltur og stúlka er saga Sigríðar og Indriða sem kynnast sem börn en þurfa að sigrast á ýmsum hindrunum áður en þau loks fá að eigast í sögulok. Þessi ástar- og uppvaxtarsaga höfðaði eflaust betur til barna og unglinga á málmótunarskeiði en málfræðibækur, tímarit eða blöð þess tíma og þannig hefur skáldsagan gegnt lykilhlutverki í að breiða út hið nýja málviðmið.

            Höfundurinn, Jón Thoroddsen (1818–1868), hafði fengið bestu menntun sem þá var völ á, umgekkst marga þeirra manna sem mest létu að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskt mál og lögðu línur við mótun íslenskrar málstefnu á þeim tíma. Jón Thoroddsen hefur þess vegna verið í kjöraðstöðu til að fylgjast með og taka þátt í umræðum um íslenskt mál og fylgja nýjum málstaðli í verkum sínum sem skáld og rithöfundur.

            Í þessari rannsókn eru bornir saman valdir þættir í málfarinu á tveimur útgáfum Pilts og stúlku 1850 og 1867. Til samanburðar eru höfð um 70 bréf með hendi Jóns Thoroddsens. Þessar tvær útgáfur af Pilti og stúlku áttu ekki aðeins drjúgan þátt í að breiða út hinn nýja málstaðal heldur eru þær jafnframt vitnisburður um tvö stig í þróun staðalsins. Breytingar þær sem gerðar voru á máli skáldsögunnar í annarri útgáfu 1867 ásamt þeim þáttum sem látnir voru óbreyttir sýna þannig málstaðal í mótun.

            Meginniðurstöður greinarinnar má draga saman þannig:

            (a) Í útgáfunni 1867 færist ritmálið fjær mæltu máli en áður.

            (b) Hinum nýja málstaðli er fylgt af meiri festu og samkvæmni í skáldsögunni, sem ætluð var til lestrar á opinberum vettvangi, en í einkabréfum Jóns Thoroddsens.

            (c) Í útgáfunni 1867 færist ritmálið nær eldra máli.

            (d) Breytingarnar í útgáfunni 1867 varða nær allar þætti sem fengu varanlegan sess í málstaðlinum og eru enn fastir þættir í viðurkenndu máli við upphaf 21. aldar.

            (e) Málið á annarri útgáfunni 1867 er ekki í öllum atriðum í sam­ræmi við viðurkennt mál nútímans sem sýnir að málstaðallinn var enn ekki fullmótaður 1867.

            (f) Mörg þeirra máleinkenna sem tekin voru upp í ritmálsstaðalinn voru í andstöðu við mælt mál á nítjándu öld, eins og áður var nefnt. Í mæltu máli færðust þó sum þessara atriða smám saman í átt að ritmálinu; ritmálið hafði þannig smám saman áhrif á mælt mál.

Published

2017-06-01

Issue

Section

Peer-reviewed Articles