Staða íslensku á sviði fjármála
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.23.5Útdráttur
Greinin fjallar um stöðu íslensku í fjármálaheimi. Orðaforði á sviði fjármála hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum enda hafa fræðin og efnahagslífið verið í örri þróun og mörg ný hugtök hafa komið með innleiðingu Evróputilskipana. Þetta gerir það að verkum að stöðugt þarf að uppfæra íðorðasöfn á þessu sviði svo að þau verði ekki úrelt. Rannsóknin beindist m.a. að því að kanna áhrif af þessum aðstæðum. Rannsóknin var framkvæmd á þann hátt að send var spurningakönnun til fjármálafyrirtækja og fjármálastofnana og auk þess til þýðingastofa sem þýða fjármálatexta. Spurt var um viðhorf til íðorða (hvort þau skipta miklu eða litlu máli), hvort íðorð væru skráð og þá á hvaða hátt, hvernig gangi að finna íslensk íðorð og hver væru helstu vandamál tengd íðorðum.
Helstu niðurstöður eru þær að mikill meirihluti telur meðferð íðorða skipta mjög miklu máli en skráning á íðorðum er þó áberandi lítil. Fram kemur að um helmingur þátttakenda þarf að leita að íslenskum íðorðum nokkrum sinnum í viku eða daglega. Meira en helmingur þátttakanda telur að helstu vandamál tengd íðorðum í fjármálum séu að þeim hefur ekki verið safnað saman á einn stað. Um 20% þátttakenda benda einnig á gamla og úrelta íðorðalista sem vandamál.