Beyging og merking orðsins hjalt
DOI:
https://doi.org/10.33112/ordogtunga.17.6Útdráttur
Orðið hjalt er nú einkum notað í fleirtölu. Í nútímamáli tíðkast tvær fleirtölumyndir í nf. og þf., hjölt(in) og hjöltu(n). Sú síðarnefnda er ekki nefnd í orðabókum en hefur þó verið komin upp þegar á 16. öld. Samkvæmt orðabókum merkir fleirtala orðsins hjalt ‘efra og fremra hjalt’ eða jafnvel (a.m.k. í fornu máli) ‘efra hjalt, fremra hjalt og meðalkafli’. Margir telja þó fleirtöluna aðeins vísa til fremra hjalts, þ.e. hlífarinnar milli brands og meðalkafla. Þarna hefur því orðið merkingarþrenging. Samanburður við merkingu enska orðsins hilt er forvitnilegur. Það virðist geta haft tvær merkingar, ‘meðalkafli’ og ‘efra hjalt, fremra hjalt og meðalkafli’. Hér er einnig um að ræða merkingarþróun en ekki þá sömu og varð í íslensku. Þýðing hins enska orðs getur verið vandasöm. Breytingin hjölt(in) → hjöltu(n), sem er áhrifsbreyting, er heldur óvænt; orð, sem tilheyrir stórum og stöðugum beygingarflokki (a-stofnum hvorugkynsorða, s.s. fjall), tekur að laga sig að beygingu lítils flokks (an-stofnum hvorugkynsorða, s.s. auga). Tvennt kann að hafa valdið þessari þróun: Annars vegar koma til greina áhrif frá orðinu hjarta en milli þess orðs og orðsins hjalt eru talsverð hljóðleg líkindi. Hins vegar koma til greina áhrif frá þeim orðum an-stofna sem oft vísa til pars í fleirtölu, þ.e. auga, eyra, lunga, nýra og eista. Fleirtala orðsins hjaltgetur vísað til slíks, bæði í eldri og yngri merkingu.