Málþróun og samfélagsbreytingar á síðari hluta 19. aldar

Málnotkun í fjölskyldubréfum

  • Ásta Svavarsdóttir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
tilbrigði í máli, máltengsl, málstöðlun, samfélagsbreytingar, fjölskyldubréf

Útdráttur

Í greininni er fjallað um áhrif þjóðfélagsbreytinga og annarra ytri þátta á málnotkun og málþróun á síðari hluta 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu í ljósi rannsóknar á úrvali fjölskyldubréfa frá tímabilinu 1878–1905. Einkum er litið til mögulegra áhrifa af auknum félagslegum og landfræðilegum hreyfanleika, m.a. þéttbýlismyndun, og vaxandi og útbreiddari máltengsla, sérstaklega við dönsku. Einnig er horft til viðleitni til aukinnar málstöðlunar, einkanlega í ritmáli, og áhrifa hennar á málnotkun almennings.

Í bréfaúrvalinu sem var kjarni rannsóknarinnar eru 69 bréf skrifuð af tveimur bræðrum og þremur systrum, þar af einni hálfsystur. Innan hópsins eru bæði líkindi og andstæður: Allir bréfritararnir eru á svipuðum aldri og alsystkinin fjögur ólust upp saman og höfðu sama félagslega bakgrunn. Andstæður innan hópsins felast einkum í kyni, menntun (og ekki síst mennturnarmöguleikum) bræðra og systra, búsetu í þéttbýli (alsystkinin) eða dreifbýli (hálfsystir) og í mismunandi landshlutum og mismiklum tengslum einstakra bréfritara við önnur tungumál vegna menntunar, búsetu og hreyfanleika. Rannsóknin beindist að tveimur máleinkennum, sem bæði voru umrædd og tengjast málstöðlunar­viðleitni á umræddu tímabili: Annars vegar tilbrigðum í nútíð eintölu af sögninni hafa, þar sem sumir vildu nota eldri myndirnar (ég) hefi og (þú/hann) hefir og mæltu með þeim frekar en myndunum hef og hefur sem samkvæmt samtímalýsingum voru orðnar ráðandi á þessum tíma, jafnvel þótt skiptar skoðanir hafi verið á vali afbrigða. Hins vegar notkun aðkomuorða – sérstaklega nýlegra og/eða framandlegra orða – bæði m.t.t. umfangs þeirra í bréfum einstakra bréfritara og þess hvers konar orð þeir notuðu. Í því tilviki voru tveir andstæðir áhrifaþættir virkir á þessum tíma. Í málumræðu var almennt amast við erlendum mál­áhrifum og ætla má að það hafi unnið gegn notkun aðkomuorða, sérstaklega í rituðu máli, en aukin erlend samskipti og ýmiss konar nýjungar sem bárust frá útlöndum hafa aftur á móti ýtt undir erlend áhrif í málinu, ekki síst í þéttbýli.

Í greininni eru birtar niðurstöður úr rannsókninni á þessum tveimur atriðum í bréfaúrvalinu. Þær eru í sumum tilvikum bornar saman við frekari gögn frá sama skeiði, bæði önnur skrif sömu bréfritara og skrif annarra, til þess að fá skýrari mynd af þeim vísbendingum sem niðurstöðurnar gefa um samband málnotkunar og ýmissa málfélagslegra þátta, t.d. búsetu, kyns og menntunar einstaklinga, og um áhrif samfélagsbreytinga eins og vaxandi þéttbýlismyndunar og aukinna erlendra samskipta á mál og málnotkun.

Útgáfudagur
2021-07-01
Tegund
Ritrýndar greinar